Bandaríska rokkstjarnan Slash, sem er einn frægasti rokkgítarleikari heims, gaf í gær út sína fyrstu sólóbreiðskífu. Það kemur eflaust mörgum á óvart, enda kappinn búinn að vera iðinn við kolann í rúma tvo áratugi.
Slash er ekkert að flækja hlutina hvað varðar nafngift plötunnar, því hún heitir einfaldlega Slash. Hún er þrettán laga og með honum koma fram þekktir rokkhundar á borð við Iggy Pop, Ozzy Osbourne og Chris Cornell. Einnig popparar á borð við Fergie úr Black Eyed Peas og Adam Levine úr Maroon 5.
Fyrsta smáskífan heitir „By The Sword“, en þar er rokkúlfurinn Andrew Stockdale úr Wolfmother Slash til halds og trausts. Lagið má heyra hér.
„Það kom bara að þeim tímapunkti þar sem ég varð að gera eitthvað sjálfstætt,“ sagði Slash í viðtali við Reuters. „Þetta er eitt af fáu sem ég hef ekki gert á mínum ferli.“
Slash, sem er 44 ára, er þekktastur fyrir að fremja gítargaldra með Guns N' Roses og seinna með Velvet Revolver. Nú vildi Slash hins vegar gera hlutina upp á eigin spýtur. Það væri tími til kominn að hann fengi gesti til að leika og syngja með sér, en hingað til hefur Slash verið gestagítarleikari hjá hinum og þessum. T.d. Michael Jackson.