Kvikmyndin Avatar heldur áfram að slá met. Að þessu sinni er það í sölu á Blue-ray og DVD-myndiskum í Norður-Ameríku, en alls seldust 6,7 milljón eintök á fjórum dögum.
Mynddiskarnir voru gefnir út 22. apríl sl. Alls hafa selst yfir fjórar milljónir DVD-diska og 2,7 milljónir Blu-ray diska, og nema tekjurnar um 130 milljónum dala (tæpir 17 milljarðar kr.).
Gamla metið í Bandaríkjunum og Kanada átti framhaldsmyndin um Leðurblökumanninn The Dark Knight, sem kom út árið 2008.
Avatar er sögð vera dýrasta mynd allara tíma, en talið er að hún hafi að minnsta kosti kostað 300 milljónir dala (38 milljarða kr.). Í janúar varð hún tekjuhæsta mynd allra tíma. Hún fór fram úr Titanic, sem var einnig í leikstjórn James Cameron.