Forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, tók á móti tónlistarmanninum Bono í Hvíta húsinu í dag. Tónlist hljómsveitar Bono, U2, var ekki umræðuefnið á fundinum heldur málefni þróunarlandanna og baráttan gegn fátækt en Bono er ákafur talsmaður þess að ríkar þjóðir styðji við þær fátækari. Meðal annars ræddu þeir um að frumkvöðlar og aðgerðarsinnar í Afríku fái stuðning og þörfina á að koma einfaldri tækniþekkingu til fátækra ríkja.
Í tilkynningu frá samtökunum ONE sem Bono er í forsvari fyrir kemur fram að þeir Bono og Obama hafi rætt um hvernig bandarísk stjórnvöld ætla að taka á þessum málum fyrir fundi G8 og G20 ríkjanna í Kanada og ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í september um þúsaldarmarkmið samtakanna.
Fundurinn var ekki á opinberri dagskrá forsetans sem gefin er út af Hvíta húsinu en talsmaður forsetans hefur staðfest við fjölmiðla að þeir hafi átt fund í dag án þess að gefa nánari upplýsingar um hvað var rætt.
Blog Bono eftir fundinn með Obama