Sindri Eldon, sonur Bjarkar Guðmundsdóttur, skrifaði afar neikvæða gagnrýni um plötu Hafdísar Huldar, Synchronized Swimmers, í nýjasta tölublað Grapevine. Umsögnin klykkir út á þeim orðum að ef þunglyndi hafi ekki drepið hlustandann muni platan gera það að verkum að hann muni vilja drepa sig sjálfur. Bubbi Morthens sér tilefni til að taka fram lyklaborðið vegna þessa máls og hraunar yfir Sindra á Facebook-síðu sinni.
„Hann getur ekki spilað á bassa skammlaust og í staðinn reynir hann að hefja sig upp í sól móður sinnar með drullu um fólk sem hefur hæfileika sem sannarlega hann hefur ekki sem tónlistarmaður,“ skrifar Bubbi. Hann fær fljótlega athugasemd þar sem hann er spurður hvort hann hafi sjálfur einkarétt á að upphefja sig á kostnað annarra.
Hafdís Huld skrifar svo sjálf athugasemd: „Takk Bubbi minn, gott að finna stuðning frá fólki sem veit um hvað það er að tala“ og er greinilega ekki skemmt yfir gagnrýni Sindra. Bubbi bætir síðan um betur og segir um Sindra: „Hann hefur reynt allt til þess að fá ljósið á sig kannski ætti hann að kúka á sviði þá fengi hann mögulega umfjöllun við hæfi.“
Tónlistarfólkið Ragnheiður Gröndal, Jakob Frímann Magnússon og Orri Harðarson kvittar allt á athugasemdaþráðinn og segist sú fyrstnefnda ekki þola svona níðskrif. Gaukur Úlfarsson gagnrýnir Bubba hins vegar og skrifar: „Sjúklega hallærisleg og barnaleg færsla Bubbi. Ég á plötu sem Sindri gerði fyrir jólin síðustu sem er stútfull af frábærri tónlist og svo ættir þú að vera manna síðastur að mæla gegn því að fólk segi það sem því í brjósti býr.“
Dóm Sindra um plötu Hafdísar má lesa á blaðsíðu 18 í Grapevine sem má nálgast með því að smella hér.
Facebook-síðu Bubba og umræðurnar í heild sinni má nálgast með því að smella hér.
Nánar í nýjasta Monitor. Blaðið má lesa í rafrænni útgáfu hér.