Breska leikkonan Charlotte Lewis segir kvikmyndaleikstjórann Roman Polanski hafa beitt sig kynferðisofbeldi þegar hún var 16 ára. Hún segir Polanski hafa sagt við hana að hann svæfi hjá öllum leikkonum sem hann leikstýrði.
Lewis greindi frá því föstudaginn sl. að Polanski hefði beitt sig kynferðisofbeldi. Hún sagði í samtali við breska dagblaðið Daily Mail um helgina að hún hefði neitað að sofa hjá leikstjóranum þegar hún mætti í leikprufu fyrir hlutverk í kvikmyndinni Pirates árið 1983.
„Hann sagði kuldalega: „Ef þú ert ekki nógu stór stelpa til að sofa hjá mér, þá ertu ekki nógu stór fyrir þessa leikprufu. Ég verð að sofa hjá öllum þeim leikkonum sem ég starfa með, þannig kynnist ég þeim og móta þær“,“ segir Lewis.
Hún fékk á endanum hlutverk í kvikmyndinni. „Ég sagði móður minni aldrei frá því sem gerðist,“ segir Lewis. Hún hafi skammast sín of mikið til þess og þurft á laununum fyrir kvikmyndaleikinn að halda. Lewis vill að Polanski hljóti sína refsingu og segist aldrei fyrirgefa honum ódæðið.
Polanski er í stofufangelsi í Sviss en hann var handtekinn í Zürich í september sl. vegna handtökuskipunar sem gefin var út á hendur honum í Kaliforníu fyrir að nauðga 13 ára gamalli stúlku þar árið 1977.