Hrunadans og horfið fé eftir Styrmi Gunnarsson fór beint í fyrsta sæti bóksölulista Eymundssonar sem birtur er í dag. Bókin hefur að geyma úttekt Styrmis á grundvallaratriðum Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Skýrslan er í öðru sæti listans en ekkert rit hefur selst jafn mikið á þessu ári.
Styrmir kynnir bók sína í Eymundsson, Skólavörðustíg, í dag kl. 17. Í bókinni fjallar Styrmir á gagnrýninn hátt um bankana og einkavæðingu þeirra, hvernig þeir stjórnuðu verði hlutabréfa í sjálfum sér – og hver í öðrum – og verðbréfasjóði á villigötum. Hann ritar um útrásarvíkinga, Fjármálaeftirlitið, Seðlabankann, ríkisstjórn landsins, fjölmiðla og hjarðhegðun smáþjóðar, svo fátt eitt sé nefnt, samkvæmt því sem kemur fram á vef Veraldar sem gefur bók Styrmis út.
Styrmir Gunnarsson er fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins.