Sarah Palin, sem var varaforsetaefni repúblikana í síðustu forsetakosningum í Bandaríkjunum, er ekki ánægð með nýjan nágranna, sem hún hefur eignast í Wasilla í Alaska. Nágranninn er bandaríski rithöfundurinn og blaðamaðurinn Joe McGinniss, sem ætlar að skrifa bók um Palin.
Palin birti í vikunni mynd á Facebook-síðu sinni af manni nokkrum, sem sést aftan á. „Jú, þetta er Joe McGinniss," skrifar hún. „Hann er hérna, í kannski fjögurra metra fjarlægð á verönd nágrannahússins og horfir á leiksvæði barnanna minna og eldhúsgluggann minn. Kannski við ættum að bjóða hann velkominn með heimabakaðri bláberjaköku á morgun svo hann geri sér grein fyrir því hve Alaskabúar eru vingjarnlegir."
Palin segist hafa orðið hissa á að sjá nýja nágrannann horfa yfir lóðina hennar og reyna að kíkja inn um svefnherbergisgluggann hjá Piper dóttur hennar, sem er 8 ára gömul.
McGinnis varð heimsfrægur 26 ára gamall þegar hann skrifaði bókina The Selling of the President 1968, um kosningarbaráttu Richards Nixons. Hann hefur einnig skrifað bók um olíuleiðslur í Alaska og bókina Fatal Vision og frægt morðmál árið 1984. McGinniss er að skrifa bók um Palin og hefur einnig skrifað um hana tímaritsgreinar, sem sýna viðfangsefnið ekki í sérlega jákvæðu ljósi enda segir Palin hann stunda gula blaðamennsku.