Svíum er að vonum brugðið eftir undanúrslit Eurovision söngvakeppninnar í Ósló í kvöld en í fyrsta skipti í sögu keppninnar keppa Svíar ekki til úrslita. Anna Bergendahl, sem söng lagið This Is My Life fékk ekki náð fyrir eyrum Evrópubúa í atkvæðagreiðslunni í kvöld.
Sjónvarpsmaðurinn Christer Björkman, sem stýrir jafnan sænskum sjónvarpsþætti um Eurovision, segir við sænsk blöð að keppnin í kvöld hafi einfaldlega verið of hörð þótt Bergendahl hafi staðið sig vel. „Ég er stoltur af henni," sagði Björkman við vef Expressen og bætti við að Bergendahl eigi bjarta framtíð sem söngkona. Keppnin í kvöld muni efla hana og styrkja.
Didrik Solli-Tangen, sem syngur fyrir hönd Noregs í úrslitunum á laugardagskvöld, sagði við norska sjónvarpið að þessi úrslit hefðu komið honum mjög á óvart. „Ég er gáttaður. Anna var greinilega besti flytjandinn í kvöld. En það komust líka margir góðir söngvarar áfram," sagði hann og bætti við að úrslitin á laugardag yrðu spennandi.