Bandaríski leikarinn Dennis Hopper lést í dag, að sögn bandarískra fjölmiðla. Hopper glímdi við krabbamein í blöðruhálskirtli sem á endanum dró hann til dauða. Hopper var 74 ára.
Hopper er hvað þekktastur fyrir leik sinn í kvikmyndunum Easy Rider og Apocalypse Now. Í kjölfar þess að hann skaust upp á stjörnuhimininn tók hann virkan þátt í öfgafullu skemmtanamunstri sem einkenndist af mikilli drykkju áfengis og enn meiri neyslu alls kyns vímugjafa.
Krabbameinið uppgötvaðist í október sl. og hefur Hopper verið í meðferð síðan. Hann sofnaði svefninum langa kl. 8.15 að morgni, að staðartíma, á heimili sínu í Kaliforníu. Fjölskylda hans og vinir voru Hopper við hlið síðustu andartökin.