Uppnám varð á Eurovision söngvakeppninni í Noregi í gærkvöldi þegar Spánverjar fluttu lag sitt en þá birtist skyndilega óboðinn gestur á sviðinu, Spánverji sem nefnir sig Jimmy Jump og sérhæfir sig í að trufla opinbera atburði, einkum íþróttakappleiki.
Varð þetta til þess, að Spánverjar fengu að flytja lag sitt aftur síðar í keppninni.
Fram kemur á vef Aftenposten, að maðurinn sem heitir Jaume Marquet, hafi oft verið handtekinn fyrir uppátæki af þessu tagi. Þá hafi hann lýst því yfir nýlega að hann ætlaði sér á svið í Eurovison og fór ekkert leynt með það að hann var kominn til Ósló. Norska framkvæmdastjórnin hafi hins vegar ekki fengið að vita af þeim yfirlýsingum.
Marquet, sem er 35 ára, keypti sér miða á úrslitakvöld Eurovision og sat í einni af fremstu röðunum í salnum. Þegar Spánverjarnir voru á sviði hljóp hann skyndilega upp á sviðið eftir rennibraut, sem notuð er til að renna myndavélum eftir.
Daniel Diges, sem söngk spænska lagið, sagði við spænska blaðið El Mundo, að honum hefði brugðið við þegar maðurinn birtist skyndilega. Marquet náði 20 sekúndum í sviðsljósinu áður en laginu lauk og hann var handsamaður.
Petter Svar, talsmaður söngvakeppninnar, segist hafa spurt Marquet hvað honum hefði gengið til og hann hefði aðeins langað til að senda Spánverjum kveðju.