Paul McCartney hefur viðurkennt að hann sé „aðeins stressaður“ að spila í Hvíta húsinu fyrir framan Barack Obama Bandaríkjaforseta í tilefni af því að honum verða veitt Gershwin-verðlaunin sem eru virtustu verðlaun Washingtonborgar á sviði dægurlagatónlistar.
„Fyrir enskan strák sem ólst upp í Liverpool er Hvíta húsið mjög sérstakt,“ sagði McCartney og bætti við að Obama væri frábær náungi. Gershwin-verðlaunin eru nefnd eftir bandarísku lagahöfundunum George og Ira Gershwin. McCartney sagði það mjög sérstaka upplifun að hafa unnið til verðlaunanna þar sem hann hefði alist upp við að hlusta á tónlist Gershwin-bræðranna.
Þetta eru fyrstu stóru verðlaunin sem McCartney hlýtur fyrir ævistarf sitt frá bandarískum stjórnvöldum.