„Fólki finnst það oft kannast mikið við mig en það finnur oft ekki tenginguna. Ég er ekkert að hjálpa þeim neitt mikið. Það spyr mig kannski hvort við höfum verið saman í skóla og ég segi bara: Það getur vel verið, ég veit það ekki,“ segir Haukur Heiðar Hauksson, söngvari Diktu.
Hann er í viðtali í nýjasta tölublaði Monitor og tjáir sig þar meðal annars um hvernig það fer saman að vera starfandi læknir og landsþekktur rokkari.
„Það er að sjálfsögðu gott að geta bara verið læknirinn sem gengur inn í stofuna en ekki einhver sem fólk er með fyrirfram mótaðar hugmyndir um. Ég hef lent í því að taka á móti sjúklingi sem segist hafa verið á tónleikum með mér kvöldið áður. En þetta hefur aldrei orðið til neinna vandræða,“ segir Haukur.
Meðfylgjandi fréttinni má sjá myndband þar sem Haukur tekur órafmagnaða útgáfu af hinu geysivinsæla lagi Thank You, sem er að finna á nýjustu plötu Diktu, Get It Together.
Nánar í nýjasta Monitor. Blaðið má lesa í rafrænni útgáfu hér.