Leikkonan Kristbjörg Kjeld var í gær útnefnd borgarlistamaður Reykjavíkur 2010. Kristbjörg segir útnefninguna mikinn heiður sem hafi komið sér mjög á óvart.
„Þetta breytir ekki starfsháttum mínum en útnefningin er alveg án kvaða. Hinsvegar langar mig auðvitað að leika og verða minni borg til sóma.“
Kristbjörg hefur verið leikkona við Þjóðleikhúsið í rúma hálfa öld auk þess að taka þátt í sýningum annarra leikhúsa og sjálfstæðra leikhópa. Hún er margverðlaunuð og fékk t.a.m. Grímuverðlaunin á miðvikudaginn fyrir besta leik í aukahlutverki í Hænuungunum.