Breski listaverkasafnarinn Charles Saatchi ætlar að gefa listagallerí sitt í Lundúnum, þar á meðal öll verk gallerísins, yfir 200 talsins, til bresku þjóðarinnar. Eru verkin metin á yfir 25 milljónir punda, tæpa 4,8 milljarða króna. Saatchi, sem er þekktasti listaverkasafnari Bretlands, hagnaðist á sínum tíma á auglýsingagerð.
Á vef Times í dag kemur fram að Saatchi hafi sagt í dag að meðal höfunda verkanna eru Tracy Emin og Grayson Perry. Hann muni einnig gefa ríkinu húsnæðið sem galleríið var í, 70 þúsund fermetrar að stærð. Það heitir nú Museum of Contemporary Art og er í Lundúnum.
Charles Saatchi opnaði nýtt gallerí árið 2008 og er það í Chelsea. Þar hefur hann einkum sýnt verk eftir unga listamenn frá Indlandi, Kína og Miðausturlöndum.