Kröfur um að íþróttamálaráðherra Rússlands segi af sér embætti hafa færst í aukana eftir að ríkisendurskoðun Rússlands upplýsti í morgun að ráðherrann hefði borgað fyrir morgunmat fimm sinnum á dag meðan hann dvaldi í Vancouver í Kanada þar sem vetrarólympíuleikarnir voru haldnir nú í vetur.
Í skýrslu, sem rússneska ríkisendurskoðunin sendi frá sér, kemur fram að Rússar eyddu 6,2 milljörðum rúblna, jafnvirði 25 milljarða króna, í vetrarólympíuleikana. Rússneskir íþróttamenn hrepptu aðeins þrenn gullverðlaun á leikunum.
Vitalí Mutko, íþróttamálaráðherra Rússlands, sætti harðri gagnrýni vegna slakrar frammistöðu Rússa á leikunum og komu fram kröfur um að hann segði af sér. Nokkrir forsvarsmenn rússneska ólympíusambandsins sögðu af sér en Mutko hélt embættinu.
Nú hafa kröfur um afsögn ráðherrans komið fram á ný vegna þess að í endurskoðunarskýrslunni kemur fram, að hann hafi notið lífsins í Vancouver þar sem hann dvaldi í 20 daga. Mutko bjó í svítu á Fairmont Hotel, einu glæsilegasta hóteli í Vancouver, og kostaði gistinóttin 1499 Kanadadali, jafnvirði 175 þúsund króna.
Að auki lét ráðherrann rússneska ríkið greiða fyrir 97 skammta af morgunmat eða sem svarar til 5 morgunverða daglega. Kostnaðurinn við þetta nam 4800 Kanadadölum, jafnvirði 565 þúsund króna.
Ríkisendurskoðun benti á, að tilmæli séu frá fjármálaráðuneytinu um að gistikostnaður vegna dvalar embættismanna í Kanada færi ekki yfir 130 dali á dag.
Fram kom einnig að Tatjana, eiginkona ráðherrans, hefði verið með í för en hún hefði ekki greitt fyrir farmiða sinn enn.
Mutko sagði við Interfax fréttastofuna í morgun, að skýrslan væri tóm þvæla og baunatalning. Hann sagðist ekki hafa valið sér gististað í Vancouver heldur hefðu skipuleggjendur leikjanna ákveðið að hann byggi á þessu hóteli þar sem hann var formaður rússnesku sendinefndarinnar.
Aðrir rússneskir fjölmiðlar segja hins vegar að hugsanlega verði hafin opinber rannsókn á útgjöldum ráðherrans. Þá sé ljóst að Mutko neyðist til að segja af sér.
Rússneska ríkisendurskoðunin fann ýmislegt fleira athugavert við ferð rússnesku embættismannanna til Vancouver. Þannig var eiginkona skautahlauparans Jevgenís Plushenkos skráð sem liðsstjóri skautaliðsins og dóttir formanns skautasambandsins var skráð sem túlkur fyrir rússneska snjóbrettaliðið.
Þá kostaði heimsókn söngvarans Dima Bilan, sigurvegara Eurovision söngvakeppninnar árið 2008, til Vancouver 2,4 milljónar rúblna, jafnvirði nærri 10 milljóna króna. Bilan var í Vancouver í 10 daga og átti að kynna Sochi leikana. Ríkisendurskoðun segir að ekki sé að sjá að Bilan hafi unnið nema 3 daga.