Íslenska kvikmyndafélagið Pegasus áformar að gera sjónvarpsþætti eftir bókum norska rithöfundarins Margit Sandemo um ísfólkið. Sandemo segist í samtali við blaðið Aftenposten vera mjög hrifin af þessari hugmynd en hún hefur skrifað 47 bækur í þessum flokki.
Garún Daníelsdóttir hjá Pegasus segir við blaðið, að hún hafi haft það að markmiði að gera sjónvarpsþætti um ísfólkið frá því hún hóf að starfa við kvikmyndir 15 ára gömul.
„Þetta er besta saga í heimi og hefur haft mikil áhrif á mig," segir hún. „En ég fékk ekki tækifæri fyrr en nýlega að ræða við Sandemo um verkefnið."
Hún segist hafa skrifað handrit sem byggi á fyrstu bókinni í flokknum og sýndi Sandemo það. Sjónvarpsþættirnir eiga að ná yfir allar 47 bækurnar en sagan berst um öll Norðurlönd og víðar. „Ég sé fyrir mér 200 þætti," segir Garún.
Sandemo segir að kvikmyndagerðarmenn hafi áður haft áform um að gera kvikmyndir eftir bókunum. „Þetta er 24. verkefnið sem er borið undir mig og ég trúi því þess vegna þegar ég tek á," segir Sandemo. Hún segist hins vegar telja, að forsvarsmönnum Pegasus sé alvara.