Lögregla á Bahamaeyjum handsamaði um helgina 19 ára bandarískan ungling, sem hefur verið á flótta undan bandarískri lögreglu í tvö ár. Pilturinn, sem nefndur hefur verið berfætti bandíttinn, verður væntanlega framseldur til Bandaríkjanna.
Colton Harris-Moore var handtekinn í nótt á eyjunni Eleuthera. Lögregla á Bahamaeyjum hefur leitað hans frá því að hann brotlenti stolinni flugvél á Great Abaco eyju fyrir viku.
Harris-Moore hefur verið á flótta undan bandarískri lögreglu frá því hann strauk frá vistheimili í Washingtonríki árið 2008. Hann hefur síðan hlotið talsverða frægð og eignast þúsundir aðdáenda, sem hafa dáðst að því hvernig honum hefur tekist að forðast lögregluna. Hann er grunaður um að hafa stolið bílum, bátum og að minnsta kosti fimm flugvélum á þessum tíma.
Lögregla á Bahamaeyjum komst á slóð piltsins á Eleuthera eftir að hraðbátur, sem stolið var á nálægri eyju, fannst þar. Harris-Moore virðist hafa átt annríkt á Eleuthera því þar hefur verið tilkynnt um fjölda innbrota á síðustu dögum.
Harris-Moore ólst upp á Camano eyju á Pugetsundi um 50 km norður af Seattle á vesturströnd Bandaríkjanna. Hann komst snemma í kast við lögin og fékk sinn fyrsta dóm 12 ára gamall fyrir hylmingu. Sakaskráin lengdist fljótt og árið 2007 var hann dæmdur í 4 ára vist í unglingafangelsi. Fyrir tveimur árum tókst honum að flýja eins og áður sagði.
Hann fékk viðurnefnið berfætti bandíttinn fyrir að brjótast berfættur inn í hús og í eitt skipti skildi hann eftir sig krítarfótspor sem einskonar nafnspjald.