The Prodigy hefur verið valin áhrifamesta hljómsveitin í elektró-geiranum í nýrri könnun sem var gerð í Bretlandi fyrir danstónlistarhátíðina GlobalGathering.
Íslandsvinirnir í The Prodigy hafa átt smelli á borð við Breathe, Firestarter og No Good (Start the Dance). Frá árinu 1990 hefur sveitin selt yfir 20 milljónir platna á heimsvísu.
Tónlistarhátíðin GlobalGathering, sem er haldin í Warwickshire, er nú tíu ára. Um 50.000 gestir sækja hátíðina árlega. Forsvarsmenn hennar létu framkvæma könnunina til að komast á því hvaða listamenn hafi haft mest áhrif á þróun danstónlistar.
Prodigy hafnaði í fyrsta sæti með 29% atkvæða. Næst á eftir kom franski rafdúettinn Daft Punk og í þriðja sæti var hljómsveitin Faithless.
Meðal annarra á topp 10 voru Fatboy Slim, The Chemical Brothers og Carl Cox.