Tónleikarnir á Bræðslunni heppnuðust vel í gærkvöldi en þeir voru í beinni útsendingu á Rás 2. Að sögn Áskels Heiðar Ásgeirssonar skipuleggjanda voru um 1.000 manns á tónleikunum og þrefaldur sá fjöldi á Borgarfirði eystra. Frábært veður var langt fram á kvöld en undir miðnætti læddist þoka inn á svæðið.
„Hér er bara tjald við tjald á hverjum þeim lausa bletti sem fannst. Ég held að það hafi aldrei verið með jafnmargir samankomnir hérna í firðinum. Mjög mikið af fjölskyldufólki og mikil og góð stemning," sagði Áskell Heiðar við mbl.is, einn forsprakka Bræðslunnar ásamt bróður sínum, söngvaranum Magna, og fleirum. „Það verður án nokkurs vafa sungið á tjaldstæðunum fram undir morgun, eftir að tónleikunum lýkur.
Flytjendur á tónleikunum voru hljómsveitirnar Fanfarlo frá Bretlandi, Dikta, 200.000 Naglbítar, KK & Ellen og Of Monsters and Men. Sjálf hátíðin hefur staðið yfir síðan á miðvikudagskvöld og heppnast einstaklega vel, að sögn Áskels Heiðars.
Að tónleiknum loknum var kveiktur varðeldur við hlið samnefnara hátíðarinnar, tónleikahússins Bræðslunnar.