Þingmenn í Líberíu og samtök blaðamanna þar í landi hafa í dag fordæmt birtingu myndar í dagblaðinu New Democrat af Naomi Campbell nakinni. Birtist myndin á sama degi og Campbell mætti í vitnastúkuna hjá stríðsglæpadómstólnum í Haag vegna stríðsglæpa fyrrum leiðtoga Líberíu, Charles Taylor.
Öldungadeild þingsins kom saman til aukafundar í gærkvöldi vegna myndbirtingarinnar sem vakið hefur mikla reiði í Líberíu. Á myndinni sést baksvipur Campbells þar sem hún horfir yfir öxl sína í átt að Taylor. Er myndin samsett úr tveimur myndum og birtist hún á forsíðu blaðsins í gær undir fyrirsögninni: Stund sannleikans um blóðdemantana.