Bandaríska leikkonan Mia Farrow sagði við réttarhöldin yfir Charles Taylor, fyrrverandi forseta Líberíu, í morgun að fyrirsætan Naomi Campbell hefðfi sagt að Taylor hefði sent sér risavaxinn demant inn á herbergi sitt í húsi Nelsons Mandela árið 1997. Í síðustu viku viðurkenndi Campbell að hafa fengið óslípaða demanta að gjöf frá Taylor.
Sagði Campbell, er hún bar vitni við stríðsglæpadómstólinn í Haag á fimmtudag að hún hefði fengið nokkra óslípaða demanta að gjöf eftir kvöldverð sem hún sat í boði Nelsons Mandela, fyrrverandi forseta Suður-Afríku, í Höfðaborg árið 1997.
Sagðist Campbell hafa talið að eðalsteinarnir væru gjöf frá Charles Taylor, þáverandi leiðtoga Líberíu. Hann svarar nú til saka hjá stríðsglæpadómstóli í Haag í Hollandi.
Réttarhöldin hafa staðið yfir í þrjú ár. Taylor er sakaður um að hafa keypt vopn handa uppreisnarmönnum í grannríkinu Síerra Leóne með illa fengnum „blóðdemöntum“ auk þess að hafa staðið fyrir morðum og öðrum illverkum í eigin landi. Hann er m.a. sagður hafa stofnað herflokka skipaða börnum.
„Hún sagðist hafa verið vakin þetta kvöld. Einhverjir menn börðu á dyr hennar. Þeir höfðu verið sendir af Charles Taylor og þeir létu hana fá risastóran demant," sagði Farrow við réttarhöldin í morgun.
Farrow var kölluð til sem vitni í málinu gegn Taylor líkt og Campbell en þær voru báðar gestir í kvöldverðarboði Mandela í september 1997 líkt og Taylor.