Á fundi sem aðstandendur Spaugstofunnar áttu í morgun með forráðamönnum RÚV var tilkynnt um að Spaugstofan yrði ekki á dagskrá Sjónvarpsins í vetur. Hefur þeim verið boðið að sjá um áramótaskaupið um næstu áramót.
Ástæðan fyrir því að þátturinn verður ekki á dagskrá í vetur er 9% niðurskurður sem RÚV þarf að fara eftir.
Spaugstofan hefur verið á dagskrá Sjónvarpsins í meira en tvo áratugi.
Að sögn Sigrúnar Stefánsdóttur, dagskrárstjóra Sjónvarpsins, er von á svari frá Spaugstofumönnum í síðasta lagi eftir helgi hvort þeir taka að sér umsjón með áramótaskaupinu í ár.
Búið er að ræða við nokkra einstaklinga um þáttagerð á laugardagskvöldum í stað Spaugstofunnar en ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun þar að lútandi.
Útsvarið verður á sínum stað í vetur og Gettu betur einnig. Eins er unnið að því að setja á laggirnar fleiri íslenska þætti í Sjónvarpinu í vetur.