Bjarnarhúnn á Flórída er loksins laus við plastkrukku sem hann hefur gengið um með fasta á hausnum í rúma 10 daga.
Húnninn, sem fengið hefur gælunafnið „Krukkuhaus“, festi hausinn í krukkunni þegar hann var að leita sér að einhverju ætilegu í rusli við bæinn Weirsdale.
Á fréttavef BBC segir að tilkynningar hafi tekið að berast dýraverndunaryfirvöldum frá íbúum á svæðinu um mánaðamótin, um að bjarnarhúnn hefði sést með plastkrukku fasta á hausnum.
Hann var á ferli með móður sinni og systkini en hefur ekkert getað nærst með krukkuna á hausnum.
Líffræðingum tókst loks finna birnina, svæfðu móðurina og fönguðu„Krukkuhaus“, sem var orðinn mjög þrekaður en barðist þó hetjulega við líffræðingana sem gátu loks haldið honum nógu lengi niðri til að ná krukkunni af hausnum á honum.
Að því loknu settu þeir móðurina í stórt búr og fylgdu húnarnir á eftir. Þar var fylgst með heilsu bjarnanna í sólarhring en þá var allt útlit fyrir að „Krukkuhaus“ næði sér að fullu og móðirin hefði jafnað sig eftir svæfinguna svo fjölskyldunni var sleppt út í náttúruna og hefur ekki sést síðan, sem líffræðingarnir telja góðar fréttir.