Fyrrverandi dómsmálaráðherra Frakklands, Rachida Dati, ruglaði saman verðbólgu og munnmökum í útvarpsviðtali í dag þar sem hún gagnrýndi erlenda fjárfestingasjóði.
„Þegar ég sé suma af þessum sjóðum krefjast tuttugu eða tuttugu og fimm prósenta arðsemi á sama tíma og munnmök eru nánast ekki til...,“ sagði hún í viðtali á útvarpsstöðinni Europe 1.
Á frönsku eru orðin „verðbólga“ og „munnmök“ afar lík og deila nokkrum sömu atkvæðum.
Dati var rekin úr frönsku stjórninni í fyrra eftir að hafa verið gagnrýnd fyrir tilhneigingu hennar til að ganga um í sérhönnuðum kjólum og að birtast á forsíðum slúðurblaða. Var slík hegðun ekki talin ráðherra sæmandi.
Dati er nú þingmaður á Evrópuþinginu.