Fyrir nokkrum vikum síðan gerði kínverska sendiráðið í Reykjavík tilraun til þess að fá Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík til þess að hætta við sýningar á bandarísku heimildarmyndinni When The Dragon Swallowed The Sun. Myndin fjallar um málefni Tíbet og samskipti íbúa þar við Kínverja.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá RIFF í dag en myndin verður sýnd á hátíðinni síðar í dag.
„Sendiráðið boðaði Hrönn Marinósdóttur, stjórnanda hátíðarinnar, á sinn fund þar sem forsvarsmenn þess óskuðu eftir því að hætt yrði við sýningar á myndinni á hátíðinni. Þeirri beiðni var hafnað.
Þá bar sendiráðið erindið einnig upp við utanríkisráðuneytið, þótt með óformlegum hætti hafi verið, eins og greint er frá á fréttavefnum phayul.com," segir ennfremur í tilkynningu.