Málfræðingurinn Noam Chomsky, sem í dag er líklega þekktari sem pólitískur atktívisti, hélt fyrirlestur og svaraði spurningum áheyrenda í Háskólabíói í kvöld. Fyrirlesturinn var fluttur frá heimili hans í Bandaríkjunum í gegnum gervihnött. Það var Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Reykjavík sem bauð uppá þennan velsótta atburð í tilefni þess að kvikmyndagerðarmaðurinn Peter Wintonic kom til landsins með heimildarmynd sína um þennan fræga Bandaríkjamann.
Peter Wintonic stóð í pontu og kynnti fyrirlestur Noam Chomsky. Áður en Chomsky byrjaði spurði Wintonic hvar væri von að finna í þessum aðstæðum? Chomsky svaraði ekki þeirri spurningu beint, né var að sjá að hann hefði kynnt sér aðstæður á Íslandi sérstaklega. Hann sagði að Ísland væri aðeins ýkt dæmi um það sem hefur verið að gerast allstaðar á Vesturlöndum.
Í kjölfarið fjallaði
hann nánast eingöngu um aðstæður í Bandaríkjunum þótt finna mætti sambærileg
dæmi á Íslandi. Hann benti á hvernig fjármálageirinn hefði farið að vaxa of
mikið í heimalandi hans á áttunda áratugnum og með tímanum hefði þessi ofvöxtur
farið að hafa alvarleg áhrif á þjóðfélagið.
Iðnaðurinn og framleiðslan hefði á
sama tíma staðið í stað. Þetta hefði haft þau áhrif á samfélagið að bilið milli
ríkra og fátækra hefði breikkað. Kjör verkamanna hefðu versnað, vinnutími
þeirra lengst og þægindi þeirra minnkað. Á sama tíma hefðu auður og sjálftökur
ríka fólksins aukist. Forstjórar fyrirtækja gætu ákveðið eigin laun og væru
alltaf að hækka þau. Þeir væru áhættusæknir því ríkið kæmi þeim til hjálpar ef
illa gengi en þeir fengju aukna bónusa ef vel gengi.
Chomsky tók
sem dæmi Tryggingafyrirtækin í Bandaríkjunum sem hann sagði að að flestra mati
væru alltof stór til að vera leyft að mistakast. Það er að afleiðingarnar af
því að stóru tryggingafyrirtækin færu á hausinn yrðu of hryllileg til að
ríkisstjórn Bandaríkjanna gæti leyft það, þar af leiðandi geti stjórnendur
þessara fyrirtækja verið rólegir þótt þeir taki mikla áhættu með fé
fyrirtækisins.
Hann sagði að þetta myndi ekki breytast undir stjórn Obama, því
forsetakjör hans hefði verið fjármagnað af þeim aðilum sem ollu kreppunni og
„einsog við er að búast frá þeim sem keyptu þessar kosningar, þá vilja
þeir fá borgað til baka eftir þær,“ sagði Chomsky. „Þess vegna valdi
Obama einn úr þeirra hópi sem fjármálaráðherra.“
Þegar fyrirlestri Noam Chomsky var lokið sagði Peter Wintonic sem gerði heimildarmyndina um hann, en hún verður sýnd á kvikmyndahátíðinni; „Úff Chomsky, ég spurði út í það, hvar við gætum fundið von til bjartsýnni en eftir þennan fyrirlestur er ég svartsýnni en nokkurn tímann fyrr.“
Nánar verður fjallað um fyrirlestur Noam Chomsky í Morgunblaðinu á morgun.