„Eitthvert stærsta þýðingarverkefni heims“

Frá bókasýningunni í Frankfurt.
Frá bókasýningunni í Frankfurt. mbl.is/Kristinn

„Við metum þetta tækifæri mikils eins og sjá má á því að framlag hins opinbera til Bókasýningarinnar í Frankfurt hefur ekki verið skert um eina krónu á íslensku fjárlögunum, ólíkt nær öllum öðrum liðum þeirra,“ sagði Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra er hún ávarpaði blaðamannafund sem hófst kl. 8:30 í morgun á bókasýningunni í Frankfurt.

Þar kynntu Íslendingar hvernig miðar í undirbúningnum fyrir bókasýninguna á næsta ári en þar verður Ísland heiðursgestur.

Katrín sagði bókmenntirnar blómstra á Íslandi, þar með taldar glæpasögurnar, sem hún hefði lengi haft áhuga á. „Ekki er nóg með að íslenskar glæpasögur njóti mikilla vinsælda á Íslandi heldur hefur hróður þeirra borist langt út fyrir landsteinana svo til hefur orðið hugtakið Íslandskrimmi sem lýsir þessum bókmenntum. Jafnvel mætti segja að hér sé um ákveðið afturhvarf til sagnabókmennta miðalda að ræða en Íslendingasögurnar snúast oftar en ekki um glæpi, hefnd og lyktir sakamála.“

Í máli hennar kom fram að nýjar tölur sýndu að útlán bókasafna á Íslandi hefðu aukist eftir að efnahagskreppan hefði skollið á. „Út úr þessum tölum má lesa að þjóðin hafi meiri tíma til bóklesturs en áður – eða meiri áhuga, og þótt það sé ekki margt gott hægt að segja um efnahagslegar kreppur þá er ekki hægt að harma slíkar breytingar.“

Katrín lauk máli sínu á því að geta nýrra þýðinga Íslendingasagna sem koma út á þýsku, dönsku, sænsku og norsku á næsta ári. „Samanlagt er þetta eitthvert stærsta þýðingarverkefni heims um þessar mundir. Við fáum tækifæri til að sýna heiminum hvaða verk það eru sem ylja okkur á löngum vetrarkvöldum og hvaða bækur við kjósum að lesa úti í miðnætursól. Um leið fáum við líka tækifæri til að sjá hvað aðrir eru að gera, hvað aðrir vilja lesa og þannig skiptumst við á bókum og hugmyndum við þjóðir heims.“

100 íslensk ritverk þýdd á þýsku

Nú þegar hafa náðst samningar um hundrað ritverk, sem verða þýdd úr íslensku eða fjalla um Íslands, og  koma út í Þýskalandi á næstu 12 mánuðum. 

Á meðal höfunda eru margir sem ekki hafa verið þýddir áður og einnig sígilt verk, sem veita innsýn í íslenska bókmenntasögu. Þá verða ljóðabækur þýddar og gefin út að minnsta kosti 2 stór safnrit.

Íslendingasögurnar verða gefnar út í nýrri   heildarþýðingu með skýringum af forlaginu S. Fischer haustið 2011.

Gestir á bókasýningunni í Frankfurt.
Gestir á bókasýningunni í Frankfurt. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þrá eftir fullkomnun og óraunsæjar áætlanir eiga hug tvíburans allan um þessar mundir. Og það sem meira er, þetta er ekkert mál fyrir þig! Oftast viltu nefnilega það sama.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Torill Thorup
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þrá eftir fullkomnun og óraunsæjar áætlanir eiga hug tvíburans allan um þessar mundir. Og það sem meira er, þetta er ekkert mál fyrir þig! Oftast viltu nefnilega það sama.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Torill Thorup