Enginn Íslendingur hefur náð að hlaupa jafn oft maraþon og hin 53 ára gamla hlaupadrottning Bryndís Svavarsdóttir.
Á laugardaginn lauk hún sínu 123. hlaupi í Connecticut í Bandaríkjunum og áætlar að hlaupa tvisvar til viðbótar um næstu helgi. Að því loknu hefur Bryndís náð þeim glæsilega árangri að hlaupa maraþon í 49 ríkjum Bandaríkjanna, segir í umfjöllun um hlaupagarp þennan í Morgunblaðinu í dag.
„Mig langar til að klára öll ríkin en þar sem þetta er orðið dýrt ætla ég að láta mig hafa það að hlaupa tvisvar um næstu helgi. Ég hleyp í Indianapolis í Indiana á laugardag og í Columbus í Ohio á sunnudag,“ segir Bryndís og bætir við að þá eigi hún einungis Delaware-ríki eftir. „Það ber gælunafnið „The first State“ (e. Fyrsta ríkið) en það verður mitt síðasta. Ég hleyp þar 15. maí 2011 og held svakateiti þegar ég kem heim.“