Talið er að þýska landsliðið, sem vann heimsmeistaramótið í knattspyrnu árið 1954, hafi verið undir áhrifum metamfetamíns í úrslitaleiknum við Ungverja, sem fór fram í Berne í Sviss og Þjóðverjar unnu 3:2. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn.
Ungverjar, með stórstjörnuna Ferenc Puskas í fararbroddi, komust í 2:0 en Þjóðverjar gáfust ekki upp og Helmut Rahn skoraði sigurmarkið á 84. mínútu.
Í rannsókninni, sem gerð var á vegum háskólans í Leipzig og þýsku ólympíunefndarinnar, kemur fram að þýska liðið hafi fengið sprautur fyrir leikinn. Var leikmönnum sagt að verið væri að sprauta þá með C-vítamíni en í raun hafi þeir fengið metamfetamín, örvandi lyf sem þýskum hermönnum var oft gefið meðan á síðari heimsstyrjöld stóð.
Í skýrslunni kemur fram, að þýskir íþróttamenn hafi fengið örvandi lyf allt frá árinu 1949.