Ummæli breska leikarans og rithöfundarins Stephens Frys um að eina ástæðan fyrir því að gagnkynhneigðar konur stundi kynlíf með karlmönnum sé vegna þess að það sé gjaldið sem þær séu tilbúnar til að greiða fyrir samband hafa vakið töluverða undrun. Í sama viðtali sagðist hann vorkenna gagnkynhneigðum karlmönnum. Breska blaðið The Guardian segir frá þessu í dag.
Fry, sem er samkynhneigður, var í viðtali í nóvemberhefti tímaritsins Attitude og sagði hann meðal annars að hann teldi að flestum gagnkynhneigðum karlmönnum finnist sem konum byði við þeim vegna þess að þeir ættu erfitt með að trúa að þær hefðu eins mikinn áhuga á kynlífi og þeir.
„Ég vorkenni gagnkynhneigðum körlum. Eina ástæðan fyrir því að konur sofa hjá þeim er vegna þess að kynlíf er það gjald sem þær eru reiðubúnar til að greiða fyrir samband með karlmanni en það er það sem þær vilja. Að sjálfsögðu eru margar konur sem neita þessu og segjast elska kynlíf. En fara þær og stunda það á sama hátt og samkynhneigðir karlmenn?“ sagði Fry við tímaritið.
„Ef konur hefðu eins mikinn áhuga á kynlífi og karlmenn þá væru til sérstök gagnkynhneigð svæði til að ná sér í hjásvæfu líkt og hjá samkynhneigðum. Konur myndu fara í Öskjuhlíðina og hitta ókunnuga til þess að sofa hjá á bak við runna. Það gerist ekki. Af hverju? Vegna þess að einu konurnar sem þú getur stundað kynlíf með á þann hátt vilja fá greitt fyrir það,“ hélt hann áfram.
Fry hefur ekki áður verið þekktur fyrir svo digurbarkalegar yfirlýsingar og hafa því vakið undrun margra, sérstaklega femínista í Bretlandi.
Blaðamaðurinn og femínistinn Rosie Boycott sagði að ummæli Frys væru hálfgert þvaður. „Konur eru alveg jafnfærar um að njóta kynlífs eins og karlar. Við förum ekki út að leita okkur að því á víðavangi af því að við þurfum þess ekki. Konur hafa aðrar leiðir til að njóta sín og við getum fundið þær á börum og skemmtistöðum,“ sagði hún.
Susie Orbach, sem er sálfræðingur og femínísk baráttukona, sagði að hún hefði áhuga á því sem leiða mætti af orðum Frys. „Hugmyndir hans um að kynverund karla sé á einhvern hátt ógeðfelld vekur áhuga minn. Af hverju myndi hann halda að konum finnist karla svo ógeðslegir? Finnst honum eitthvað ógeðfellt við kynlíf?“