10 ára gömul stúlka af rúmensku bergi brotin eignaðist barn í borginni Jerez í Andalúsíuhéraði á Spáni í síðustu viku. Heilsast móður og barni vel og voru fljótlega útskrifuð af spítala borgarinnar. Spænska blaðið El País segir frá þessu á vefsíðu sinni í dag.
Samkvæmt staðarblaði vó barnið 2,9 kíló þegar það fæddist á þriðjudag í síðustu viku. Samkvæmt jafnréttisráði Andalúsíu á fæðingin sér engin fordæmi í héraðinu. Fjölskylda stúlkunnar munu annast bæði hana og barn hennar en félagsmálayfirvöld munu þó hafa vökult auga með framhaldinu.
Í Andalúsíu voru 48 tilfelli um ungmæður undir 15 ára aldri árið 2008 samkvæmt hagstofu landsins en í landinu öllu voru þau 177 á sama tímabili. Andalúsía hefur lengi verið eitt fátækasta hérað Spánar.