Bandaríski rapparinn Lil Wayne hefur verið látinn laus úr Rikers Island fangelsinu í New York eftir að hafa setið inni í átta mánuði. Var hann dæmdur í eins árs fangelsi í mars fyrir ólöglegan vopnaburð en látinn laus fyrr vegna góðrar hegðunar.
Lil Wayne fékk fern Grammy-verðlaun á síðasta ári og hefur selt plötur í bílförnum. Að sögn umboðsmanns Wayne ætlar hann að fara til Miami þar sem hann á heima, samkvæmt frétt á vef BBC.
Lil Wayne, sem er 28 ára og heitir réttu nafni Dwayne Michael Carter Jr., játaði í október í fyrra að hafa verið með skammbyssu í fórum sínum án leyfis. Byssan fannst í rútu, em hann notaði á tónleikaferð.
Nýjasti diskur Wayne, I Am Not a Human Being, fór strax í efsta sæti sölulista í september eftir að hann var gefinn út. Hann er fyrsti listamaðurinn í fimmtán ár sem nær því að fara í efsta sæti Billboard 200 listans á meðan viðkomandi situr í fangelsi.
Rapparinn nýtur gríðarlegrar hylli vestanhafs og viðurkenndi forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, nýlega að hann væri með tónlist rapparans í MP3 spilara sínum.