Konung Svíþjóðar og ástkonu hans dreymdi um að stinga af saman til eyðieyjar í Suðurhöfum þar sem þau gætu búið saman í friði og lifað á kókoshnetum.
Þetta segir sænska söngkonan Camilla Hedmark í blaðaviðtali í dag en hún og Karl Gústaf, Svíakonungur, áttu í ástarsambandi um miðjan tíunda áratug síðustu aldar. Fjallað var um sambandið í bók um einkalíf konungs, sem kom út í Svíþjóð nýlega.
„Við flúðum inn í ævintýra heim þar sem við gátum gefið ímyndunaraflinu lausan tauminn," segir Henemark við sænska blaðið Expressen í dag. Hún segist hafa ákveðið að koma fram og segja frá sambandinu við konung frá sínum sjónarhóli.
„Ég er opinber persóna og þess vegna vil ég að fólk fái mínar útskýringar og viti, að maður er ekki stoltur af öllu sem gerist í lífinu. Því ég er ekki stolt af þessu," segir hún.
Camilla Henemark segir frá því þegar hún hitti kónginn fyrst í byrjun tíunda áratugarins í einkasamkvæmi. Hún var þá þekkt söngkona og fór í tónleikaferðir um heiminn með hljómsveitinni Army of Lovers. Konungur sýndi Henemark mikinn áhuga og bauð henni æ oftar í allskonar samkvæmi. Sambandið þróaðist síðan úr daðri yfir í ástarsamband.
„Við vorum kát og glöð. Okkur leið eins og við værum ástfangin en það voru ekki raunverulegar tilfinningar heldur létum við kringumstæðurnar hlaupa með okkur í gönur. Þetta gat aldrei orðið varanlegt. Það var eins og tilfinningarnar væru að spila með okkur," segir Henemark í viðtalinu.
Hún segir að þau hafi nokkrum sinnum talað um að slíta sambandinu en Henemark óttaðist, að hennar nánustu myndi snúa við henni bakinu ef það yrði opinbert. Þess vegna ræddu þau Karl Gústaf um að finna sér eyðiey og búa þar.
Henemark segir að þau Karl Gústaf hafi aldrei rætt saman um Silvíu drottningu. Þá vill hún ekki segja hve lengi samband þeirra konungs varði og hvað gerðist þegar þau voru tvö ein.