Catherine Elizabeth Middleton, sem einn dag gæti orðið drottning Breta, fæddist fyrir tæpum 28 árum inn í venjulega breska miðstéttarfjölskyldu í Bucklebury í Berkshire. Tilkynnt var í dag að Kate, eins og hún er jafnan kölluð, og Vilhjálmur Bretaprins hefðu trúlofað sig í október og til stæði að brúðkaup þeirra færi fram á næsta ári. Þau Kate og Vilhjálmur hafa verið saman í átta ár.
Michael og Carole Middleton, foreldrar Kate, reka pöntunarþjónustu og selja leikföng og leiki fyrir barnaafmæli.
Kate er elst af þremur börnum. Yngri systir hennar, Pippa, er 25 ára, og bróðirinn, James, er 21 árs. Kate stundaði nám í Marlborough College í Wiltshire þar sem hún þótti standa sig vel, bæði í leik og störfum.
Þau Kate og Vilhjálmur kynntust þegar þau lærðu bæði listasögu við St. Andrews háskólann í Fife. Þar bjuggu þau í sömu heimavist í fjögur ár. Breskir fjölmiðlar sögðu fyrst frá sambandi þeirra árið 2005 en þá birtust myndir af Kate við hlið Vilhjálms og Karls, föður hans, í skíðaferð.
Í febrúar 2006 byrjuðu vangaveltur um að þau Kate og Vilhjálmur myndu trúlofa sig. Í desember það ár komst Kata á ný í fyrirsagnir blaða þegar hún og móðir hennar fylgdust með formlegri inntökuathöfn í Sandhurst herskólanum þar sem Vilhjálmur var tekinn inn í skólann.
Ljósmyndarar eltu parið á röndum á þessum tíma þrátt fyrir að breska konungsfjölskyldan bæði um að þau fengju frið. Er það talin vera ástæðan fyrir því, að unga parið ákvað að slíta sambandi sínu í apríl 2007 þótt engin formleg tilkynning væri gefin út um það. Þá vann Kate fyrir tískuverslunarkeðjuna Jigsaw.
Í kjölfarið birtust neikvæðar fréttir um Middletonfjölskylduna í blöðum, m.a. um að móðir Kate hefði tuggið tyggigúmmí við athöfnina í Sandhurst og talað um salerni í návist drottningarinnar.
Þegar líða fór á árið sáust þau Kate og Vilhjálmur saman á ný, meðal annars á tónleikum, sem haldnir voru í minningu Díönu prinsessu, móður Vilhjálms, á Wembley.
Kate hætti störfum fyrir Jigsaw og hefur síðan unnið við fyrirtæki foreldra sinna.
Elísabet Englandsdrottning sendi í dag frá sér yfirlýsingu þar sem hún sagðist afar glöð yfir því, að sonarsonur hennar og Kate Middleton, unnusta hans, hefðu trúlofast.
Talsmaður Buckinghamhallar sagði, að bæði drottningin og hertoginn af Edinborg, eiginmaður hennar, væru mjög ánægð.