Auglýsing birtist í nýsjálensku dagblaði á dögunum þar sem óskað var eftir aukaleikurum með „ljósan húðlit“ fyrir tökur á myndinni Hobbitinn (e.The Hobbit) sem byggist á skáldsögu breska rithöfundarins J.R.R. Tolkien.
Sá sem var ábyrgur fyrir auglýsingunni hefur nú verið rekinn að sögn talsmanns Peter Jackson, sem leikstýrir Hobbitanum, þar sem húðlitur aukaleikaranna hafi aldrei verið ræddur. Þá á sá hinn sami að hafa sagt við pakistanska konu að hún gæti aldrei leikið hobbita vegna þess hve dökk hún væri yfirlitum.
„Við erum að leita að fólki sem er ljóst yfirlitum. Ég er ekki að reyna að vera... Eitthvað. Þú verður að líta út eins og hobbiti,“ sagði umræddur starfsmaður við konuna sem sóttist eftir aukahlutverki í myndinni.
Á kvikmyndavefnum IMDB kemur fram að tökur hefjast í febrúar á næsta ári en gert er ráð fyrir að myndin komi í kvikmyndahús árið 2012. Hobbitinn skartar meðal annars leikurunum Cate Blanchett, Martin Freeman og Ian McKellen.