Breska leikkonan Judi Dench hefur verið kjörin besti sviðsleikari allra tíma í könnun sem leikhúsblaðið The Stage lét framkvæma. Í viðtali við blaðið segist hún vera orðlaus og bætir við: „Það er svakalegt að þurfa að standa undir þessum væntingum.“
Dench, sem er 76 ára gömul, hóf ferilinn í Old Vic í Liverpool árið 1957 þegar hún lék Ófelíu í Hamlet eftir Shakespeare. Í framhaldinu kom hún fram í söngleikjum, á sviði og í kvikmyndum.
Árið 1996 komst hún á spjöld sögunnar þegar hún hlaut Oliver-verðlaunin í tveimur flokkum, þ.e. sem besta leikkonan og sem besta leikkonan í söngleik, á einum og sama árinu.
Hópur sérfræðinga var fenginn til að setja saman lista yfir 10 bestu
leikarana. Í framhaldinu voru lesendur blaðsins beðnir um að velja úr
þeim lista sem sérfræðingarnir lögðu fram.
Leikkonan Maggie Smith hafnaði í öðru sæti og leikarinn Mark Rylance í því þriðja, en hann er yngsti leikarinn á listanum.
Ian McKellen hafnaði í fjórða sæti, Laurence Olivier í því fimmta, Paul Scofield í því sjötta, John Gielgud í sjöunda, Michael Gambon í áttunda, Vanessa Redgrave í níunda og Ralph Richardson hafnaði í 10 sæti.