Ditte Okman, sem í desember var ráðin til í starf einskonar spunameistara danska stjórnmálaflokksins Venstre, lýsir reynslu sinni af gáleysislegri færslu á Facebook í viðtali við tímaritið Alt for damerne. Okman neyddist til að hætta störfum í apríl vegna málsins.
Okman, sem er 36 ára, starfaði áður sem blaðamaður á vikublaðinu Se og Hør en Venstre réði hana til að hressa upp á ímynd sína í fjölmiðlum.
Í mars, eftir að hafa starfað í danska þinghúsinu Kristjánsborgarhöll í rúma þrjá mánuði, skrifaði Okman á Facebook um konu, sem vann í verslun í húsinu, að hún blaðraði of mikið og hlyti að vera trufluð á geði. Þegar vinur Okman á Facebook bað um nánari skýringar skrifaði Okman: „Langar til að kyrkja hana hægt. Ef hún gæti bara haldið kjafti einstöku sinnum..."
„Ég notaði Facebook sem skemmtilegt leikfang... þar sem ég gæti komið fram eins og ég er klædd og notað veitingahúsamál eins og maður gerir þegar maður spjallar við vini sína. Okkur fannst víst öllum að Facebook væri hluti af einkalífinu," segir Okman í viðtalinu sem danskir netmiðlar fjalla um í dag og bætir við að henni hefði aldrei dottið í hug að aðrir læsu færslur hennar en vinir og kunningjar. Raunar höfðu ýmis ummæli hennar á Facebook vakið athygli áður.
Meðal „vina" Okman á Facebook voru margir blaðamenn og blaðamaður á Politiken skrifaði um ummæli Okman á bloggi sínu. Í kjölfarið hringdu blaðamenn í hana og skyndilega birtist mynd af henni á vef B.T.
„Þá varð ég hrædd. Ég fékk áfall. Svo fór ég heim. Ég gat ekkert sagt - annað en að ég ætlaðist aldrei til þess að það sem ég skrifaði yrði opinbert," segir Okman við Alt for damerne.
Hún segist hafa skammast sín og fært afgreiðslukonunni, sem hún móðgaði, blóm. Sjónvarpstökumaður TV2 sá þegar Okman kom út úr versluninni og myndirnar birtust í kvöldfréttunum.
„Ég kom heim dauðþreytt, kveikti á sjónvarpinu og það fyrsta sem ég sá var auglýsing um kvöldfréttir TV2 þar sem ég var fyrsta frétt. Þá slökkti ég á sjónvarpinu og kveikti ekki á því í mánuð," segir hún.
Okman boðaði veikindaforföll næsta dag og viku síðar sagði hún upp. Hún segist ekki hafa séð, þegar Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra og leiðtogi Venstre, gagnrýndi hana í sjónvarpsviðtali. „Þá lá ég undir sæng með blóðhlaupin augu og þannig lá ég í margar vikur," segir hún.
Okman lýsir í viðtalinu hvernig hún upplifði viðbrögðin, sem urðu við málinu og segist hafa fengið morðhótanir. „Ég þurfti á hjálp að halda. Ég sat allan apríl heima hjá mér í nærfötunum vafin í teppi og þorði ekki út. Ég var hrædd um að ókunngt fólk myndi skamma mig."
„Ég hef velt því mikið fyrir mér hvort ég væri vond manneskja. En niðurstaðan er að maður er ekki það sem maður gerir. Það er ekki hægt að taka aftur. Ég er ekki slæm en ég var heimsk," segir Okman.