Bandaríski leikarinn George Clooney er staddur í Súdan þar sem hann hyggst vera viðstaddur sögulegar kosningar á morgun þegar kosið verður um sjálfstæði Suður-Súdans. Clooney hefur verið ötull baráttumaður fyrir bættum hag landsmanna og gerði m.a. heimildarmynd um Darfur-héraðið með föður sínum, Nick Clooney.
„Ég hef aldrei verið í landi þar sem íbúarnir kjósa um sjálfstæði í fyrsta sinn. Bara það eitt að fá að fylgjast með upphafi nýrrar þjóðar og íbúanna, sem hefur dreymt um þetta í marga áratugi. Það er stórkostlegt og mikill heiður að fá að fylgjast með fólkinu og sjá eftirvæntinguna í augum þeirra,“ segir Clooney.
Milljónir létust í borgarastríðinu í Súdan, sem stóð yfir í marga áratugi. Tekist var á um þjóðerni, trúarbrögð og olíu. Milljónir til viðbótar misstu heimili sín og urðu úrkula vonar um betri framtíð.
Búist er við því að samþykkt verði að lýsa yfir sjálfstæði. Það er hins vegar ekki ljóst hvernig aðskilnaðurinn verður framkvæmdur.
„Ég tel að raunveruleikinn sé sá, að menn verði að setjast niður að samningaborðinu til að ræða sig að niðurstöðu. Samningamennirnir verða að átta sig á því að það er eflaust hægt að gera málamiðlarnir hvað varðar olíumálin, en skv. fólkinu sem við ræddum við í Abyei, þá er ekkert hægt að miðla málum varðandi landsvæði,“ segir hann.
Íbúar Súdans eru 40 milljónir, þar af búa um átta milljónir í Suður-Súdan.