Ísland er í fjórða sæti á lista sem bandaríska dagblaðið New York Times hefur tekið saman og birt yfir áhugaverða ferðamannastaði á árinu 2011. Á listanum er að finna 41 stað og í efsta sæti er borgin Santiago í Síle.
Í öðru sæti eru eyjarnar San Juan, sem eru í Washingtonríki í Bandaríkjunum. Og í því þriðja er Kho Samui í Taílandi.
Á vef blaðsins segir að þrátt fyrir að Ísland hefi gengið í gegnum mikla erfiðleika að undanförnu, megi sjá ljós í myrkrinu. A.m.k. hvað varðar ferðamannaþjónustu. Eftir hrun sé mun ódýrara fyrir ferðamenn að heimsækja landið.
Blaðið segir að ferðamenn verði að sjálfssögðu að upplifa íslenska náttúru, enda landið einstaklega fallegt.
Það sé hins vegar meira í boði, t.a.m. menningartengdir viðburðir og er nýja tónlistar- og ráðstefnuhöllin Harpa nefnd í því samhengi .