Sambýliskona sænska höfundarins Stiegs Larssons segist vel geta lokið við fjórðu bókina um þau Lisbeth Salander og Mikael Blomkvist ef henni tekst að tryggja sér rétt yfir ófullgerðu handriti, sem Larsson skildi eftir sig þegar hann lést árið 2004.
Eva Gabrielsson er að gefa út æviminningar sínar og kemur bókin út í Frakklandi, Svíþjóð og Noregi í næstu viku. Þar fjallar hún um það hvernig Millenium-þríleikurinn svonefndi varð til en bækurnar þrjár, sem Larsson skrifaði, hafa nú selst í yfir 45 milljónum eintaka um allan heim.
Larsson lést af völdum hjartaáfalls árið 2004, fimmtugur að aldri. Hann hafði þá lokið við bækurnar þrjár: Karlar sem hata konur, Stúlkan sem lék sér að eldinum og Loftkastalinn sem hrundi. Þau Gabrielsson bjuggu saman í 32 ár en giftust aldrei og eftir að Larsson lést hefur Gabrielsson átt í hörðum deilum við föður og bróður Larssons um arfleifð hans.
AFP fréttastofan segir, að í nýju bókinni segist Gabrielsson berjast fyrir Larsson, sig sjálfa og almenning. Hún segir, að Larsson hafi lokið við um 200 síður af fjórðu bókinni um Salander og Blomkvist þegar hann lést.
„Ég gæti lokið við bókina. (...) Stieg og ég skrifuðum oft saman," segir hún og bætir við að þetta væri því aðeins hægt að fjölskylda Larssons samþykkti að hún fengi höfundarrétt að bókinni.
„Ég ætla ekki að segja frá því um hvað fjórða bókin fjallar," segir Gabrielsson. „En ég get þó sagt, að Lisbeth nær smátt og smátt að losna við drauga og óvini sem hún er að kljást við."
Gabrielsson hafnaði á síðasta ári boði erfingja Larssons um að fá greidda 2,1 milljón evra og sæti í stjórn stofnunar, sem fer með höfundarrétt dánarbús höfundarins.
Í bók sinni gagnrýnir hún þar sem hún kallar „Stieg Larsson vörumerki og iðnað... Ég vil ekki sjá kaffikrúsir og annan varning merktan Millennium. Ég vil að hinum raunverulega Stieg sé sýnd virðing."