Rocco Siffredi, frægasta klámstjarna Ítalíu, hefur bæst í hóp þeirra sem hafa tjáð sig um hneykslismál Silvios Berlusconis forsætisráðherra landsins. Segir hann Ítali stolta af Berlusconi fyrir afrek hans í ástarmálum. Þá þjáist þeir báðir afa sama vandamálinu, sístöðu.
„Sannleikurinn er sá að Ítalir eru stoltir af manni eins og Berlusconi sem er 74 ára gamall, elskar kynlíf og lifir góðu kynlífi sjálfur. Þá á ég ekki bara við Ítali úr verkamannastétt,“ sagði klámstjarnan. Breska blaðið The Guardian segir frá þessu á vefsíðu sinni.
Siffredi sem er 46 ára gamall var tilnefndur af klámiðnaðinum sem einn af fimmtíu stærstu stjörnunum í bransanum og er nú þjóðþekktur á Ítalíu og kemur reglulega fram í spjallþáttum í sjónvarpi. Sagði hann að ef Berlusconi gæti komist hjá því að fara í fangelsi fyrir að hafa borgað táningi fyrir kynlíf og að hafa þrýst á lögregluna um að hylma yfir með honum, þá yrði honum fyrirgefið af ítölskum kjósendum.
„Alls staðar annars staðar hefði honum verið komið úr embætti fyrir mörgum árum en hér kemst hann upp með þetta,“ sagði Siffredi.
Sagðist hann viss um að Berlusconi hefði ekki haft miklar áhyggjur af raunverulegum aldri stúlkunnar sem hann hafi átt að hafa borgað fyrir kynlíf ef hún liti út fyrir að vera eldri en tvítug. Lýsti hann Berlusconi sem kynlífsfíkli.
„Ég stunda kynlíf helminginn af helmingnum af helmingnum af þeim skiptum sem hann stundar kynlíf,“ sagði Siffredi í myndbandi á Facebook. Tækist Berlusconi að upplifa eigin draumóra með því að blanda saman völdum og kynlífi og með því að gera það sem hann vildi með hverjum sem hann vildi.
Það myndi hins vegar ekki láta hann missa tiltrú kjósenda á Ítalíu. „Alveg eins og minn sjarmi er fólginn í því að vera fjölskyldumaður utan skjásins þá skilur Berlusconi að það að vera fjölskyldumaður er mikilvægt. Það og að halda sig réttu megin við kirkjuna,“ sagði hann.
„Berlusconi og ég eigum margt sameiginlegt,“ sagði Siffredi ennfremur. „Mér hefur verið sagt af áreiðanlegum heimildarmönnum að Berlusconi hafi eitt sinn sagt: „Siffredi og ég eigum við sama vandamál að stríða: sístöðu.“"