Leikarinn Charlie Sheen útskrifaðist af meðferðarheimili vegna fíkniefna- og áfengisnotkunar í dag. Hann segist ekki hafa í hyggju að halda bindindið.
„Fyrir fimm árum var ég allsgáður í langan tíma og ég var að farast úr leiðindum,“ sagði Sheen í útvarpsviðtali í dag.
Sheen er sonur leikarans Martin Sheen og leikur í sjónvarpsþáttunum „Two and a Half Men“. Hann hefur fyllt síður slúðurblaðanna með litríku líferni sínu, þar sem eiturlyf, áfengi, vændiskonur og klámmyndaleikkonur koma við sögu.
Hann var í meðferðinni í tvær vikur og hafði áður verið á sjúkrahúsi vegna mikilla verkja sem eru taldir stafa af mikilli neyslu fíkniefna og áfengis.
Sheen sagði í útvarpsviðtalinu að skynsamlegt væri að hann sneri sem fyrst aftur til vinnu, á meðan hann væri í standi til þess. Hann sagði að blanda af krakki og kókaíni væri slæm fyrir suma, en ekki alla.
Sheen hefur nokkrum sinnum komist í kast við lögin vegna eiturlyfjanotkunar, heimilisofbeldis og fyrir að kaupa sér þjónustu vændiskvenna.
Spurður að því hvort framferði hans gæti haft þau áhrif að hann yrði rekinn úr þáttunum var svarið: „Yeah, blah, blah, nitpick, nitpick.“