Komist hefur upp um köttinn Dusty, sem býr í bænum San Mateo, suður af San Francisco.
Myndir náðust af Dusty þar sem hann var að laumast inn í hús nágranna sinna og stela þaðan smáhlutum. Í ljós hefur komið að kisi hefur á undanförnum þremur árum stolið um 600 hlutum, allt frá þvottasvömpum til brjóstahaldara.
„Handklæði, hanskar, skór, sokkar og leikföng," sagði Jean Chu, eigandi Dusty, við ABC News sjónvarpsstöðina í Kalíforníu.
„Hann stal sundfötunum hennar mömmu," bætti fimm ára gömul dóttir nágrannans við.
Dýralífssjónvarpsstöðin Animal Planet sýndi mynd um Dusty í vikunni en þar voru sýndar myndir úr innrauðri myndavél þar sem kisi sást laumast með feng sinn.