Kvikmyndin Brim, sem Zik Zak kvikmyndir framleiddu, var valin kvikmynd ársins þegar Edduverðlaunin voru afhent í kvöld. Myndin fékk alls sex verðlaun en Nína Dögg Filippusdóttir var meðal annars valin besta leikkona í aðalhlutverki fyrir leik sinn í myndinni.
Dagur Kári Pétursson var valinn leikstjóri ársins fyrir mynd sína, The Good Heart, en sú mynd fékk fimm verðlaun. Dagur Kári sagði, þegar hann tók við leikstjóraverðlaununum, að hann hefði gert kvikmyndir í þremur löndum en það væri engum blöðum um það að fletta að íslenskir tæknimenn væru þeir hæfileikaríkustu sem hann hefði unnið með.
Hrafn Gunnlaugsson fékk heiðursverðlaun Eddunnar og afhenti Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, þau verðlaun. Í þakkarræðu sinni bað Hrafn Ólaf Ragnar meðal annars að gefa þjóðinni tækifæri til að kjósa um Icesave-samninginn vegna þess að þjóðinni væri betur treystandi en þingmönnum.
Kvikmynd ársins: Brim.
Leikstjóri ársins: Dagur Kári, fyrir The Good Heart
Leikari í aðalhlutverki: Ólafur Darri Ólafsson, fyrir Rokland.
Leikkona í aðalhlutverki: Nína Dögg Filippusdóttir, fyrir Brim.
Leikari í aukahlutverki: Þorsteinn Bachmann fyrir Óróa.
Leikkona í aukahlutverki: Elma Lísa Gunnarsdóttir fyrir Rokland.
Heimildarmynd ársins: Fálkasaga.
Kvikmyndataka ársins: G. Magni Ágústsson fyrir Brim.
Klipping ársins: Valdís Óskarsdóttir, Eva Lind Höskuldsdóttir fyrir Brim.
Gervi ársins: Ásta Hafþórsdóttir og Stefán Jörgen Ásgeirsson fyrir The Good Heart.
Búningar ársins: Helga Rós V. Hannam fyrir The Good Heart.
Leikmynd ársins. Hálfdán Pedersen fyrir The Good Heart.
Stuttmynd ársins: Clean, Númer 9. ehf.
Tónlist ársins: Slow Blow fyrir Brim.
Hljóð ársins: Ingvar Lundberg og Kjartan Kjartansson fyrir Brim.
Handrit ársins: Dagur Kári, The Good Heart.
Leikið sjónvarpsefni ársins: Réttur II, Saga film fyrir Stöð 2.
Frétta- eða viðtalsþáttur ársins: Landinn.
Menningar- eða lífsstílsþáttur ársins: Fagur fiskur, sem Saga film framleiddi fyrir Ríkisútvarpið.
Barnaefni ársins: Stundin okkar í Sjónvarpinu.
Sjónvarpsmaður ársins: Gísli Einarsson.
Skemmtiþáttur ársins: Spaugstofan sem Saga film framleiddi.
Þóra Arnórsdóttir var síðan valin vinsælasti sjónvarpsmaðurinn í símakosningu.