Tveir enskir bræður hafa verið fundnir sekir um fjársvik og önnur brot í tengslum við skemmtigarð sem þeir opnuðu í Dorset á Englandi og kenndu við Lappland. Í ljós kom að fátt stóðst sem auglýst var og gestir töldu sig hafa verið hlunnfarna.
Sagt er frá málinu á vef Sky sjónvarpsstöðvarinnar. Bræðurnir Victor og Henry Mears auglýstu skemmtigarðinn veturinn 2008 og í auglýsingum var gestum boðið upp á vetrarparadís með snævi þöktum bjálkakofum, ísbjörnum og jólamarkaði.
En þegar gestir komu á svæðið sáu þeir aðeins nokkur ljósker hangandi í trjám og hrörlegt skautasvell. Ísbjörninn var aðeins stytta, bjálkahúsin reyndust vera skúrar, sem nokkrir sleðahundar voru bundnir við og snjórinn var búinn til úr plasti. Spjaldi með mynd af fæðingu Jesú hafði verið komið fyrir á plægðum akri.
Þúsundir gesta mættu í garðinn en voru fljótir að forða sér þegar þeir sáu hvers kyns var. Garðinum var lokað eftir tæpa viku.
Sky hefur eftir einum gestinum, að hann hafi eytt 150 pundum, nærri 29 þúsund krónum, í aðgöngumiða fyrir fjölskyldu sína. „Við spurðum fólk á svæðinu til vegar en garðurinn var ekkert merktur ef undan er skilið handskrifað skilti á umferðarkeilu þar sem stóð: Lappland.
Victor Mears var titlaður framkvæmdastjóri garðsins en yngri bróðurinn, Henry sá um kynningu. Victor viðurkenndi fyrir rétti, að hann hefði tekið smá áhættu en talið að peningarnir myndu skila sér þegar fólk keypti miða.
Henry sagðist telja að staðið hefði verið við allt sem lofað var í auglýsingum. „Það er sama hvað maður reynir, fólk getur alltaf kvartað yfir einhverju," hefur Sky eftir honum.