Börn á Akureyri létu snjókomu ekki á sig fá í morgun heldur örkuðu út í öskudaginn í bítið samkvæmt hefðinni. Kunnugleg lög hljómuðu á nokkrum stöðum sem Morgunblaðið sótti heim en líka eitt og eitt nýtt og frumsamið.
Margar skemmtilegar verur voru á sveimi í höfuðstað Norðurlands í morgun, bæði krakkar úr leikskólum og auðvitað grunnskólunum sem allir gefa frí á öskudaginn. Einstaka mamma eða pabbi voru með í för.
Ýmsu góðgæti var gaukað að börnunum eftir fagran söng og virtust starfsmenn allra fyrirtækja hafa mjög gaman af heimsóknunum.