Ísbjörninn Knútur, sem varð heimsfrægur eftir að móðir hans hafnaði honum, er dauður, að sögn starfsmanna dýragarðsins í Berlín.
Knútur varð fjögurra ára. Heiner Klös, sem sér um ísbirnina í dýragarðinum í Berlín, segir að Knútur hafi fundist dauður og ekki sé vitað um dánarorsök. Hræið verður krufið á mánudag.
Myndir af Knúti hlýjuðu mörgum um hjartaræturnar vorið 2007. Starfsmenn dýragarðsins ólu ísbjarnarhúninn upp eftir að móðir hans vildi ekkert með hann hafa.
Aðsókn í dýragarðinn í Berlín margfaldaðist því allir vildu sjá litla ísbjarnarhúninn.