Stúlka sem var svipt titli sem fegursta stúlkan í San Antonio í Bandaríkjunum vegna þess að hún væri of feit hefur endurheimt titilinn eftir að tekist var á um málið fyrir dómi.
Hin sautján ára Domonique Ramirez hélt því fram að stjórnendur keppninnar hefðu skipað henni að hætta að borða mexíkóskt ruslafæði og síðan hafi hún verið svipt titlinum.
Skipuleggjendur keppninnar segja að Ramirez hafi verið svipt titlinum vegna þess að hún hafi ekki farið að reglum keppninnar sem hún hafi skuldbundið sig til að fylgja.
Eftir 12 tíma réttarhald komst dómari í Texas að þeirri niðurstöðu að Ramirez ætti rétt á að fá titilinn, ungfrú San Antonio 2011 aftur.
Ramirez, sem er 173 cm á hæð og 58,5 kg, var ánægð með niðurstöðuna. Linda Woods, skipuleggjandi keppninnar, svipti hana titlinum í janúar með þeim rökum að hún hefði verið óstundvís og ekki hagað sér eins og fegurðardrottning ætti að gera. Hún hefði mætt í myndatöku í bikini of feit þannig að myndirnar hefðu verið ónothæfar. Hún sagði að niðurstaða dómsins fæli í sér óréttlæti fyrir San Antonio.