Uppnám er á Indlandi vegna nýrrar ævisögu um Mahatma Gandhi, sjálfstæðishetju Indverja, en í bókinni er Gandhi sagður hafa farið frá eiginkonu sinni og tekið saman við þýskan líkamsræktarmann. Þá hafi hann verið haldinn kynþáttafordómum í garð blökkumanna.
Ævisagan er eftir bandaríska höfundinn Joseph Lelyveld en þar er sjónum meðal annars„ beint að sambandi Gandhis við þýska gyðinginn og líkamsrækarmanninn Hermann Kallenbach.
Gandhi bjó með Kallenbach í Jóhannesarborg í tvö ár í byrjun 20. aldar en hann snéri aftur til Indlands árið 1914.
„Þú hefur gersamlega náð valdi á líkama mínum," skrifaði Gandhi í bréfi til Kallenbach. „Þetta er þrælahald af verstu tegund."
Bresk blöð hafa fjallað um bókina á síðustu dögum. Í Daily Mail var fyrirsögnin: Gandhi fór frá eiginkonu sinni og bjó með karlkyns elskhuga. Daily Telegraph sagði að Gandhi hefði verið haldinn kynþáttafordómum í garð blökkumanna í Suður-Afríku.
Lelyveld, sem er fyrrum ritstjóri bandaríska blaðsins New York Times segir að fjölmiðlaumfjöllunin sýni bókina í alröngu ljósi.
„Ég gef ekki í skyn að Gandhi hafi verið rasisti eða tvíkynhneigður," segir hann í yfirlýsingu sem útgáfufélagið Alfred A. Knopf sendi frá sér. „Orðið tvíkynhneigð stendur hvergi í bókinni. Orðið „kynþáttahatur" er notað einu sinni í umfjöllun um ummæli Gandhis sem hann lét falla skömmu eftir að hann kom til Suður-Afríku... Niðurstaða kaflans er ekki að Gandhi hafi verið kynþáttahatari."
En bandaríska blaðið The Wall Street Journal segir, að í bók Lelyvelds komi fram að Gandhi hafi verið kynferðislega bregnlaður, ómögulegur stjórnmálamaður og öfgafullur sérvitringur.
Gandhi átti fjögur börn með Kasturba eiginkonu sinni.
Bókin kemur í verslanir í Bandaríkjunum í dag. Ekki er vitað hvort bókin verður seld á Indlandi.