Myndskeið af Julian Assange, aðalritstjóra WikiLeaks, dansandi á íslensku diskóteki, hafa nú birst á vefnum. Fjallað er um myndskeiðið á vef bandaríska viðskiptablaðsins Forbes í dag.
Daniel Domscheit-Berg, fyrrverandi samstarfsmaður Assange, segir í bók sinni, Inside WikiLeaks, að Assange sé eins og hirðingi þegar hann dansar, hann sé ekki sérlega taktfastur og virðist ekki hafa tilfinningu fyrir tónlistinni þótt hann sé nokkuð svalur.
Nú getur fólk dæmt um þetta sjálft af myndskeiði, sem Seth Sharp, plötusnúður og söngvari, hefur sett á myndbandsvefinn YouTube. Sharp tók myndirnar í desember 2009 og segir við Forbes, að hann hafi þá ekkert vitað hver Assange var.
„Julian var óþvingaður og fór víða á dansgólfinu og mér fannst merkilegt hve hann var ófeiminn," segir Sharp við Forbes. „Ég tók því af honum myndskeið og ljósmyndir. Hvíta hárið var líka áberandi í klúbbnum vegna þess að gestirnir eru venjulega mun yngri."
Sharp geri sér ekki grein fyrir því hver Assange var. Hann hafi beðið hann um leyfi til að taka myndir af honum dansandi en hann sé vanur að taka myndir af dansgólfinu þegar hann er að spila plötur. „[Assange] hikaði fyrst og ég sagði honum að ég ætlaði ekki að setja myndirnar á Facebook," hefur Forbes eftir Sharp.
Hann sendi nokkrar myndir til vina sinna, sem voru í klúbbnum þetta kvöld. Einn þeirra þekkti Assange og birti myndina á vefnum. Sharp gerði sér síðan ekki grein fyrir því hver dansarinn var fyrr en hann sá myndina á bloggvefjum nýlega.
Sharp segist hafa velt því talsvert fyrir sér hvort hann ætti að birta myndskeiðið en síðan komist að þeirri niðurstöðu að það væri saklaust samanborið við þá umræðu sem fram hefur farið um Assange og ásakanir á hendur honum í Svíþjóð um kynferðisbrot.
„Mér fannst það líka hvetjandi hvernig honum tókst að gleyma sér á dansgólfinu og að það væri áhugavert fyrir fólk að sjá þetta og taka sjálft afstöðu."